Stjórnendur finnska farsímaframleiðandans Nokia hafa gengið svo á sjóði fyrirtækisins í skugga dýrari lántökukostnaðar en áður að óttast er einungis taki tvö ár að tæma peningaskápinn.

Reuters-fréttastofan greinir frá því í umfjöllun sinni um Nokia í dag að fyrirtækinu hafi ekki tekist að ná til baka markaðshlutdeild sinni á farsímamarkaði og hafi það varið háum fjárhæðum í endurkomuna með framleiðslu á nýjum símum. Bent er á að á síðastliðnum fimm ársfjórðungum hafi fjáraustrið numið 2,1 milljarði evra. Haldi bruninn áfram á sama hraða sé útlit fyrir að þeir 4,9 milljarðar sem eftir eru í sjóðum Nokia gufi upp á tveimur árum. Á móti útstreyminu vega greiðslur frá bandaríska hugbúnaðarrisanum Microsoft þungt. Fyrirtækið greiðir Nokia 1 milljarð dala á ári, jafnvirði 800 milljónir evra, á ári en Lumia-símarnir frá Nokia keyra á stýrikerfi Microsoft.

Skuldabréf Nokia í ruslflokki

Nokia átti 10 milljarða evra af handbæru fé árið 2007. Nú á fyrirtækið hins vegar 4,9 milljarða. Á sama tíma rennur upp gjalddagi á 1,25 milljarða evra skuldabréfi Nokia árið 2014 og 500 milljóna evra skuldabréfi árið 2019. Fjármálasérfræðingar segja í samtali við Reuters útlit fyrir að Nokia þurfi að ganga á sjóði sína til að greiða bréfin þar sem Fitch og Standard & Poor's hafi skellt skuldabréfunum í ruslflokk. Eins og til að bæta gráu ofan á svart hefur skuldatryggingarálag Nokia rokið upp. Það stendur nú í 749 punktum, sem merkir að fjárfestar þurfi að greiða 7,49% álag ofan á skuldabréf Nokia til fimm ára til að tryggja það gegn greiðslufalli. Til samanburðar stendur skuldatryggingarálag á erlendar skuldir íslenska ríkisins í 307 punktum.

Af þessum sökum telja fjármálasérfræðingarnir að Nokia geti lent í erfiðleikum með endurfjármögnun skulda sinna og verði því að ganga á sjóði sína til að eiga fyrir þeim.