Gengi hlutabréfa í finnska farsímarisanum Nokia féllu um ríflega 3% í gær eftir að félagið samþykkti að kaupa hugbúnaðarfyrirtækið Navteq Corp. fyrir 8,1 milljarð Bandaríkjadala. Þetta er ein stærsta yfirtaka sem Nokia hefur ráðist í og að sögn sérfræðinga er kaupverðið töluvert hátt.

Nokia greiddi 78 dali á hlut fyrir Navteq, sem er 3 sentum meira heldur en gengi bréfanna stóð í þegar markaði lokuðu á föstudaginn í kauphöllinni í New York. Það sem af er þessu ári hefur gengi bréfanna í Navteq hækkað um meira en helming.