Finnski farsímaframleiðandinn Nokia hefur ákveðið að lækka verðið á Lumia 900 snjallsímum í Bandaríkjunum um helming, en verðið miðast við að kaupandi skrifi undir samning hjá símfyrirtæki. Er litið á þetta sem enn eitt merkið um að Nokia eigi undir högg að sækja á snjallsímamarkaði, þrátt fyrir að Lumia símanum hafi verið ágætlega tekið af gagnrýnendum.

Þegar Lumia 900 síminn kom á markað í Bandaríkjunum var hann seldur á 100 dali með samningi, sem er töluvert undir verðinu, sem fólk greiðir fyrir iPhone 4s með samningi, sem er á bilinu 200 til 400 dalir. Þrátt fyrir þetta hefur salan á Lumia símum ekki verið í samræmi við væntingar og hefur verðið nú verið lækkað í tæpa 50 dali.