Starfslokagreiðsla fráfarandi forstjóra Nokia, Stephen Elop, hefur vakið undrun og reiði stjórnmálamanna í Finnlandi. Tilkynnt var á dögunum að Elop fengi tæpar 20 milljónir evra, jafnvirði tæpra 3,3 milljarða íslenskra króna, frá fyrirtækinu. Elop settist í forstjórastól Nokia árið 2010. Elop er jafnframt fyrsti forstjóri í sögu fyrirtækisins sem er ekki finnskur.

Microsoft tók á dögunum yfir farsímastarfsemi Nokia undir forystu Elops, sem hafði starfað sem framkvæmdastjóri hjá Microsoft áður en hann fór til Nokia. Í kjölfar samrunans var ákveðið að Elop skyldi snúa aftur til starfa hjá Microsoft og að hann skyldi segja skilið við Nokia með 20 milljónir evra í vasanum.

Málið hefur valið talsverða athygli í Finnlandi en forsætisráðherra landsins, Jyrki Katainen, lét hafa eftir sér í sjónvarpsviðtali um helgina að ekki væri hægt að réttlæta slíka bónusgreiðslu á þessum erfiðu tímum. Jutta Urpilainen, fjármálaráðherra landsins, taldi að greiðslan gæti grafið undan trausti meðal almennings og orðið til þess andrúmsloftið í kjölfar sölunnar versnaði enn frekar. Stór hluti Finna er ósáttur við sölu Nokia til bandaríska risans en fyrirtækið var á sínum tíma leiðandi í farsímasölu á heimsvísu og á sterkar rætur að rekja til finnsks samfélags.