Finnski farsímaframleiðandinn Nokia hefur gefið út afkomuviðvörun fyrir annan ársfjórðung og segir forstjóri fyrirtækisins, Stephen Elop, að til standi að segja upp um 10.000 starfsmönnum í Finnlandi, Þýskalandi og Kanada.

Þrátt fyrir útgáfu nýrra snjallsíma sem keyra Windows stýrikerfið hefur farsímafyrirtækinu gengið illa að komast aftur inn á markað sem það datt út af þegar snjallsímabyltingin hófst. Á fyrsta fjórðungi þessa árs fækkaði seldum símum frá Nokia um 24%.

Bloomberg hefur eftir Alexander Peterc, sérfræðingi hjá Exane BNP Paribas í London, að hann búist ekki við því að Nokia skili hagnaði í ár eða á næsta ári.

Gengi bréfa Nokia féll um ein 10% í gær og hefur það lækkað um 49% á síðustu tólf mánuðum.