Microsoft áformar að hætta að framleiða snjallsíma undir merkjum Nokia. Nýir Nokia Lumia snjallsímar munu þannig verða þekktir sem Microsoft Lumia, að sögn fyrirtækisins. BBC News greinir frá málinu.

Nafnabreytingin mun eiga sér stað þrátt fyrir að Microsoft hafi skrifað undir tíu ára samning um að nota áfram Nokia nafnið á snjallsímavörum.

Fyrir um ári síðan keypti Microsoft farsímahluta Nokia fyrir um sjö milljarða bandaríkjadollara. Síðan þá hefur Microsoft hægt og rólega reynt að afmá nafnið úr snjallsímaframleiðslu sinni.

Nokia er þó ekki algjörlega úr sögunni því aðrar deildir hins upprunalega fyrirtækis munu halda áfram að nota nafnið.