Finnski farsímaframleiðandinn Nokia hagnaðist um 202 milljónir evra á fjórða og síðasta ársfjórðungi nýliðins árs. Það jafngildir tæpum 35 milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar nam tapið 1,1 milljarði evra ári fyrra. Síðastliðin tvö uppgjörsár hafa í raun ekki verið falleg á að líta í bókhaldi Nokia enda tapið svo til botnlaust, fjórir milljarðar evra á 18 mánuðum, og efasemdir uppi um að Nokia myndi hreinlega hafa það af í harðri samkeppninni við aðra farsímaframleiðendur.

Stephen Elop, sem var vart sestur í forstjórastól Nokia þegar hann tók upp niðurskurðarhnífinn, sagði upp 20.000 starfsmönnum, útvistaði vinnu, seldi einingar og dró seglin saman. Þá var áhersla lögð á að þróa Lumia-snjallsíma sem keyrði á stýrikerfinu Windows 8 í samvinnu við Microsoft í stað síma sem keyrðu á hinu aldna Symbian-stýrikerfi frá Nokia.

Salan á símum undir merkjum Nokia tók að glæðast og nam velta fyrirtækisins um 8 milljörðum evra á síðasta ársfjórðungi sem er 11% aukning á milli ársfjórðunga. Sala á símtækjum jókst hins vegar ekki mikið, fór úr 6,3 milljónum tækja yfir jólin í 6,6 milljónir. Tekjurnar af sölunni ruku hins vegar upp um 33% á milli ára enda símarnir dýrari en áður.

Til viðbótar við niðurskurð særði það fjárfesta mest að stjórn Nokia hefur ákveðið að greiða ekki út arð vegna síðasta rekstrarárs. Það hefur ekki gerst síðan árið 1971 þegar Nokia var enn iðnfyrirtæki. Hvað sem því líður þá hafa aðgerðir forstjórans nýja skilað því að nú á Nokia 4,4 milljarða evra í sjóði og virðist fyrirtækið dafna fremur en hitt, að því er segir um málið á vef breska dagblaðsins Guardian .