Nokia kynnti í dag fyrstu símtækin, sem sérstaklega eru hönnuð fyrir Windows 7.5 farsímastýrikerfið. Vonast finnski símtækjaframleiðandinn til þess að snjallsímarnir tveir hjálpi fyrirtækinu að klóra aftur til sín hluta þeirrar markaðshlutdeildar sem fyrirtækið hefur tapað á síðustu árum.

Símtækin heita annars vegar Lumia 800 og hins vegar Lumia 710 og hafa verið um átta mánuði í þróun hjá Nokia. Í frétt AP er segir að símarnir séu sæmilega góðir, en standist ekki fyllilega samanburðinn við iPhone símana frá Apple eða bestu Android símana frá Samsung. Hins vegar séu þeir langt frá því að vera jafndýrir og símar keppinautanna. Lumia 800 síminn kemur á markaðinn í nóvember í ár og Lumia 710 fyrir áramót. Lumia 800 er með 3,7 tommu snertiskjá, 8 megapixla myndavél og á að geta gert flest það sem aðrir snjallsímar geta gert.

Hingað til hafa Windows snjallsímar ekki átt upp á pallborðið hjá neytendum, enda verður að viðurkenna að stýrikerfið hefur ekki verið samkeppnishæft. Takist Windows hins vegar að búa til nægilega gott stýrikerfi sem notað verður af nægilega góðum símtækjum er engin ástæða til annars en að ætla að það muni njóta vinsælda meðal þeirra sem vilja geta notað Windows Office forritin og Outlook póstforritið í símanum sínum.