Mikill áhugi er á 65% hlut Novators í búlgarska símafyrirtækinu Bulgarian Telecommunications Company (BTC) og er finnski símtækjaframleiðandinn Nokia á meðal hugsanlegra kaupenda af Vivatel, farsímaarmi félagins, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Heimildarmennirnir segjast þó ekki geta fullyrt að Nokia muni gera kauptilboð í félagið.

Bandaríski fjárfestingabankinn Lehman Brothers er með BTC í sölumeðferð og segja heimildarmenn blaðsins að mögulegt sé að brjóta upp félagið og selja BTC og Vivatel í sitt hvoru lagi. Deutsche Telekom og gríska símafyrirtækið OTE eru einnig á meðal hugsanlegra kaupenda af búlgarska símafyrirtækinu.

Þrjú ár eru síðan Björgólfur Thor Björgólfsson og fyrirtæki hans Novator hófu innreið sína á fjarskiptamarkað í Mið- og Austur-Evrópu. Árið 2004 keyptu CVIL og Bivideon, sem eru félög sem eru að stærstum hluta í eigu Björgólfs Thors, hlut í tékkneska fjarskiptafyrirtækinu CRa ásamt Landsbankanum og Straumi-Burðarási. Þegar CRa var afskráð í kauphöllinni í Prag var markaðsvirði þess um 37 milljarðar króna. Hlutur Novators var 70%. Fyrirtækið var selt seint á síðasta ári og var söluandvirðið hlutar Novators um 120 milljarðar króna.

Árið 2004 setti fjármögnunarsjóðurinn Advent saman fjárfestahóp sem kallast Viva Ventures. Novator er hluti af þessum hóp. Félagið keypti búlgarska ríkissímafyrirtækið BTC sem þá var verið að einkavæða. Hlutur Novators í BTC var 65%, en einungis hefur verið samið um kaupréttinn á hlutnum. Novator hefur nú falið fjárfestingarbankanum Lehman Brothers að selja hlut Novators í BTC. Söluandvirðið er talið vera um tveir milljarðar evra, eða um 180 milljarðar króna.

Á svipuðum tíma hefur Björgólfur Thor undirbúning að vinnu vegna þjónustu við þriðju kynslóðar farsíma í Póllandi í gegnum félagið P4. Novator á 75% í P4 og afgangurinn er í eigu Netia, símafyrirtæki sem var starfandi í Póllandi, áður en Novator hélt innreið sína þar.

2005 keypti Novator sig inn í gríska símafyrirtækið Forthnet og jók hlut sinn þar í nokkrum skrefum upp í 40%. Nýlega minnkaði Novator hlut sinn þar í 20% og hagnaðist verulega á viðskiptunum. Upphaflega var keypt í Forthnet að meðaltali á genginu sex en selt á genginu tíu.