Finnski farsímaframleiðandinn Nokia er tilbúinn að eyða miklum fjármunum til að brjótast almennilega inn á bandarískan snjallsímamarkað með Lumia Windows snjallsíma sína. Kemur þetta fram í viðtali Stephen Elop, forstjóra Nokia, við tæknisíðuna c|net.

Þar segir Elop að bandaríski markaðurinn skipti ekki aðeins máli vegna þeirra tekna sem hægt er að hafa upp úr honum, heldur vegna þess að hann leggur línurnar fyrir heiminn allann. Ef Nokia gengur vel í Bandaríkjunum eykur það líkurnar á því að fyrirtækinu gangi vel annars staðar.

Í viðtalinu segir hann of snemmt að tala um það núna hvort ákveðið verði að takmarka eða jafnvel hætta við arðgreiðslur á næsta ári til að eiga meira eigið fé í slíka markaðssókn, en útilokar það hins vegar ekki.