Finnska farsímafyrirtækið Nokia hefur tilkynnt að félagið muni innan skamms höggva skarð í velgengi Apple og framleiða síma sem er vel samkeppnishæfur við iPhone, sem telja má meðal vinsælustu farsíma um þessar mundir.

Nokia er stærsti farsímaframleiðandi heims en fyrirtækið hefur mátt þola mikla gagnrýni fyrir að bregðast ekki við vinsældum iPhone með því að koma með samkeppnishæfan síma.

Í Financial Times (FT) af málinu er haft eftir Olli-Pekka Kallasvuo, forstjóra Nokia að fyrirtækið stefni að því að framleiða síma sem verði betri en iPhone. Þá segir Kallasvuo að Nokia muni ekki eingöngu framleiða síma í framtíðinni heldur ætli fyrirtækið jafnframt að verða leiðandi í þjónustu við farsíma, svo sem með útgáfu aukahluta fyrir farsíma, með kortagerð og gps þjónustu og tónlistarspilurum, svo dæmi séu tekin.

Sá sími frá Nokia sem hingað til hefur verið talinn sigurstranglegastur í viðskiptalífinu er Nokia N97, en það er sími sem hægt er að opna og úr er orðin lófatölva. Hins vegar hefur fyrrnefndur iPhone og eins Blackberry síminn, sem framleiddur er af Research In Motion í Kanada, verið mun vinsælli en símar Nokia á þessu sviði.

Samkvæmt frétt FT mun Nokia fljótlega kynna nýjar þjónustur við N97 símann, meðal annars Linux vafrann, en síminn er í dag hægvirkari og flóknari en iPhone og Blackberry að sögn blaðsins. Þá kemur einnig fram að Nokia íhugi framleiðslu á lófatölvum, svokölluðu „netbooks“ innan tíðar.

Kallasvuo segir N97 símann hins vegar vel samanburðarhæfan við iPhone. Síminn henti viðskiptamönnum jafnvel betur en iPhone og um leið og búið er að bæta símann verði hann betri en iPhone og Blackberry.