Velta Nokia jókst örlítið, var 6,94 milljarðar evra á þriðja ársfjórðungi nú en var 6,87 milljarðar miðað við sama tímabil í fyrra. Hagnaður félagsins nam hinsvegar 660 milljónir evra en var 823 milljónir fyrir sama tímabil í fyrra, hér er því um að ræða tæplega 20% lækkun á milli tímabila. Nokia hafði fyrr á árinu gefið út afkomuviðvörun vegna lækkunar á markaðshlutdeild en gáfu út nýja afkomuáætlun 9. september þar sem gert var ráð fyrir bættri afkomu þriðja ársfjórðungs frá því sem áður var talið.

Í Hálffimm fréttum KB banka kemur fram að niðurstaða þriðja ársfjórðungs fór örlítið fram úr væntingum þeirrar spár. Þar var gert ráð fyrir hagnaði uppá 0,13 evrur á hlut en niðurstaða ársfjórðungsins var 0,14 evrur á hlut. Nokia er sem fyrr stærsti farsímaframleiðandi heims með um 33% markaðshlutdeild og er það aukning um 1% frá öðrum ársfjórðungi.