Nokkrir aðilar hafa fengið réttarstöðu sakbornings í tengslum við húsleitir embættis sérstaks saksóknara í dag og á þriðjudag vegna kaupa félagsins Q Iceland Finance ehf. á 5,01% hlut í Kaupþing banka í september sl.

Enginn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Sérstakur saksóknari, Ólafur Þór Hauksson, vildi ekki upplýsa Viðskiptablaðið um hvar húsleitirnar hefðu farið fram. Hann staðfesti hins vegar að nokkrir aðilar hefðu verið yfirheyrðir og enn fremur að nokkrir hefðu fengið réttarstöðu sakbornings.

Hann vildi ekki upplýsa hverjir það væru.

Enn á eftir að yfirheyra fleiri vegna málsins, segir Ólafur Þór.

Þrjár húsleitir fóru fram á þriðjudag vegna málsins og sjö í dag. Málið kom til sérstaks saksóknara frá Fjármálaeftirlitinu.