Nokkrir gjalddagar krónubréfa eru framundan nú í apríl en alls gjaldfalla krónubréf að nafnvirði 16 milljarða króna innan mánaðarins. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Fyrsti gjalddaginn er í dag, en þá gjaldfellur þriggja milljarða króna útgáfa hollenska bankans Rabobank.

Á föstudaginn falla svo þrjár minni útgáfur Evrópska Endurreisnar- og þróunarbankans, EBRD, fyrir samtals fjóra milljarða á gjalddaga.

Síðar í mánuðinum koma svo krónubréf að nafnvirði alls 12 milljarða króna á gjalddaga á þremur jafnstórum gjalddögum.

Tæplega helmingur þeirra krónubréfa sem eru á gjalddaga á 2. ársfjórðungi falla á gjalddaga í apríl eða samtals 16 milljarðar af þeim 33 milljörðum króna sem gjaldfalla á fjórðungum að viðbættum vöxtum.

Metútgáfa í janúar

Til samanburðar gjaldféllu alls krónubréf að nafnvirði 100 milljarða króna auk vaxta á 1. fjórðungi ársins, þar af voru 25 milljarða króna útgáfa sem Landsbankinn var umsjónaraðila með og ætla má að hafi verið í eigu innlendra aðila. Ný útgáfa á 1. ársfjórðungi nam ríflega 98 milljörðum króna.

Metútgáfa var í janúar þegar bréf að nafnvirði ríflega 82 milljarða voru gefin út. Heildarútistandandi krónubréf nema nú ríflega 366 milljörðum króna eða um 30% af vergri landsframleiðslu. Hefur krónubréfastaðan ekki verið minni frá því í apríl á síðasta ári.

Róleg tíð framundan í krónubréfaútgáfu

Engin krónubréfaútgáfa leit dagsins ljós í mars sem kemur ekki á óvart þar sem aðstæður á gjaldeyrisskiptamarkaði hafa ekki verið með besta móti hér á landi síðustu vikurnar og vaxtamunur við útlönd verið afar lítill í stystu samningum. Væntur ávinningur af krónubréfaútgáfu hefur því dregist saman Ætla má að lítið verði um krónubréfaútgáfur á meðan aðgengi að erlendu lánsfé er takmarkað og áhættufælni fjárfesta á alþjóðamörkuðum mikil líkt og verið hefur að undanförnu.