Hrein raunávöxtun lífeyrissjóðanna, það er ávöxtun umfram verðbólgu, var 0,34% á síðasta ári samanborið við -21,96% raunávöxtun á árinu 2008. Fjármálaeftirlitið hefur gefið út skýrslu um ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2009.

Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðastliðinn 5 ár var 0,4% og meðaltal síðastliðna 10 ára var 1,8%. Segir í helstu niðurstöðum skýrslunnar að lága raunávöxtun megi rekja til eftirkasta bankahrunsins. Árið 2009 einkenndist af hárri verðbólgu, afskriftum skuldabréfa og gjaldeyrishöftum.

Heildareignir nærri 1800 milljarðar

Í árslok 2009 námu heildareignir lífeyrissjóðanna tæplega 1.775 milljörðum króna samanborið við um 1.600 milljarða í árslok 2008.  Aukning á milli ára er um 11% eða 2,2% raunaukning miðað við verðbólgu.

Iðgjöld lækkuðu um 9% á milli ára, úr 114 milljörðum króna árið 2008 í rúmlega 107 milljarða króna í fyrra. Aukið atvinnuleysi og almenn lækkun launa eru taldar vera meginástæður lækkunarinnar. Gjaldfærður lífeyrir ásamt útgreiðslu séreignasparnaðar var tæplega 76 milljarðar á árinu 2009 en var 54 milljarðar árið 2008.

Séreignarsparnaður eykst

Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila jókst um 12,8% á árinu 2009 og nam 288 milljörðum króna. Sparnaðurinn nam 256 milljörðum króna í árslok 2008. Af heildareignum lífeyriskerfisins nam séreignarsparnaður um 15%.

Iðgjöld til séreignalífeyrissparnaðar lækkuðu á milli ára, og fóru úr 33,4 milljörðum króna í 26,3 milljarða króna á árinu 2009.

25 deildir þurfa að skerða réttindi

Lögum samkvæmt skal vera jafnvægi á milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða. Komi í ljós við tryggingafræðilega athugun að munur á eignum og skuldbindingum er yfir 10%, eða meiri en 5% samfellt í fimm ár, ber lífeyrissjóði að grípa til viðeigandi ráðstafana til að ná jafnvægi á milli eigna og skuldbindinga.

Í lok árs 2009 var bráðabirgaákvæði framlengt sem heimilaði lífeyrissjóðum að hafa allt að 15% mun á milli eigna og framtíðarskuldbindinga vegna lífeyris. 25 deildir lífeyrissjóða  án ábyrgðar voru með neikvæða tryggingafræðilega stöðu á árinu 2009, þar af 3 deildir með meiri halla en 15%. Þær verða því að skerða réttindi, segir í niðurstöðum skýrslunnar.

Þeir lífeyrissjóðir sem njóta bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélags eru undanþegnir ákvæðum laganna sem fjalla um jafnvægi á milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða.