Sparisjóður Vestfirðinga, Sparisjóður Strandamanna og Sparisjóður Húnaþings og Stranda hafa ákveðið að opna starfsstöð í Reykjavík.

Í frétt á vef Bæjarins besta á Ísafirði kemur fram að um er að ræða samstarfsverkefni þessara þriggja sjóða, þar sem ætlunin er að auka þjónustu sjóðanna við viðskiptavini þeirra á höfuðborgarsvæðinu sem og að afla nýrra.

Ráðinn hefur verið starfsmaður til að veita þessari starfsstöð forstöðu og er það Kristján Hjelm. Kristján er mjög kunnur sparisjóðafjölskyldunni, bæði sem starfsmaður og fyrrverandi sparisjóðsstjóri og nú síðast starfsmaður Sparisjóðabanka Íslands hf.

Starfsstöð sjóðanna hefur verið gefið nafnið SP-ráðgjöf. Samstarfssjóðirnir hafa fest kaup á húsnæði fyrir starfsemina, að Engjateigi.