Um 2% af þeim hlutabréfum sem voru til sölu í hlutafjárútboði TM skiluðu sér aftur til seljandans vegna þess að fjárfestar stóðu ekki við áskriftarloforð sem þeir gáfu í útboðinu.

Virði hlutabréfanna sem runnu aftur til Stoða var um 94 milljónir króna miðað við útboðsgengið 20,1 króna á hlut. Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri Stoða, segir að um sé að ræða hóp smærri fjárfesta sem ekki greiddu greiðsluseðil sem birtist í heimabanka. Nokkrar ástæður geti legið að baki, til dæmis gleymska fjárfesta eða það að kaupendur hafi vonast til þess að fá meira en þeir fengu. Þá geti verið að áskriftarloforð hafi verið felld niður af öðrum ástæðum, til dæmis vegna þess að áskriftir bankamanna bárust of seint. Starfsmenn umsjónaraðila útboðsins máttu til að mynda aðeins gera tilboð á þremur fyrstu klukkustundum útboðsins.

Um 7.000 aðilar skráðu sig fyrir bréfum í hlutafjárútboði TM dagana 22. til 24. apríl. Til sölu var 28,7% hlutur Stoða í tryggingafélaginu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.