Telja má nokkuð víst að Seðlabankinn mun spá meiri samdrætti á árinu en hann gerði rá fyrir í síðustu spá sinni. Þetta segir í morgunkorni Íslandsbanka en greiningin spáir 0,5% stýrivaxtalækkun næstkomandi miðvikudag.

Í síðustu spá Seðlabankans, sem birtist í ágúst, kom fram að vísbendingar væru um að botn efnahagssamdráttarins væri að baki og að efnahagsbati væri hafinn eða við það að hefjast. Þá gerði bankinn ráð fyrir 1,9% samdrætti á árinu í stað 2,6% sem reiknað var með í maí. Segir í morgunkorni Íslandsbanka að meginástæða mismunar hafi legið í kröftugri atvinnufjárfestingu.

„Á hinn bóginn spáði Seðlabankinn minni hagvexti á næstu árum en hann hafði reiknað með í maí. Þannig spáði bankinn um 2,4% hagvexti á næsta ári í stað 3,4% vaxtar og svo 1,7% árið 2012 í stað 1,9%.“

Spá líklega meiri samdrætti

„Til þess að færa rök fyrir þessu má m.a. benda á þær landsframleiðslutölur yfir fyrsta helming ársins sem Hagstofan birti í septemberbyrjun en þar er talið að landsframleiðsla hafi dregist saman um 7,3% að raungildi á fyrsta helming ársins samanborið við sama tíma í fyrra,“ segir í morgunkorninu.

Þá bendi vísbendingar um seinni helming ársins til þess að hagkerfið sé enn undir álögum kreppunnar og fylgifiskum hennar.

Óvíst hvort bankinn sé trúverðugur

„Þó má geta þess að Már Guðmundsson Seðlabankastjóri tjáði sig nýverið um að löngu fyrir bankahrun þá varð bankanum ljóst að samdráttur yrði í íslensku hagkerfi á árunum 2009 og 2010. Sagði hann ennfremur að starfsfólk bankans hefði ekki þorað að birta þær svartsýnu spár sem líkönin skiluðu vegna utanaðkomandi gagnrýni. Velta má því fyrir sér hvort að þessi háttur sé enn við lýði innan bankans og þar með  hvort hægt sé að taka spár bankans trúverðugar.“