Afgangur af vöruskiptum við útlönd nam 2,9 milljörðum króna í ágúst. Þetta er talsverður samdráttur frá í fyrra þegar afgangurinn nam 13,8 milljörðum króna. Það sem af er ári nemur afgangur af vöruskiptum við útlönd 31,1 milljarði króna. Það er 9,1 milljarði króna minna en á fyrstu átta mánuðum ársins 2012.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að á fyrstu átta mánuðum ársins voru vörur fluttar út fyrir 393,8 milljarða króna en inn fyrir 362,6 milljarða króna. Þar af nam verðmæti vöruútflutnings 44,1 milljarði króna í ágúst en innflutnings 41,2 milljarði króna.

Á fyrstu átta mánuðum ársins verðmæti vöruútflutnings 20,7 milljörðum minna á gengi ársins en í fyrra. Iðnaðarvörur voru 52,1% alls útflutnings og var útflutningur þeirra 6,9% minni en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 44,1% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 1,3% minna en á sama tíma árið áður. Samdráttur í útflutningi á iðnaðarvörum og sjávarafurðum er að hluta til vegna verðlækkana á afurðaverði.

Á sama tíma var verðmæti vöruinnflutnings 11,6 milljörðum eða 3,1% minna nú en í fyrra. Það skýrist aðallega af minni innflutningi á skipum og flugvélum. Einnig minnkaði innflutningur á eldsneyti en á móti kom aukinn innflutningur fjárfestingavara, hrávara og rekstrarvara.