Hlutabréf lækkuðu nokkuð í Evrópu í dag en það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins af ótta við frekari samdrátt í fjármálageiranum að sögn Reuters fréttastofunnar.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 4% í dag og hefur nú lækkað um 41% það sem af er ári.

Eins og fyrr segir voru það bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins. Þannig lækkaði Lloyds um 7,5%, HBOS um 7,9%, UBS um 8,4%, HSBC um 6,2%, Deutsche bank um 6,7% og Royal Bank of Scotland um 4,1% svo nokkur dæmi séu tekin.

Enginn banki lækkaði þó jafn mikið og ítalski bankinn Intesa Sanpaolo sem lækkaði um 16,9% eftir að lögð var fram tillaga fyrir hluthafafund að enginn arður yrði greiddur af hagnaði þriðja ársfjórðung þessa árs.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 3,6%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 3,7% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 5,3%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 4,8% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 3,4%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 4,3%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 4,9% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 6,1%.