Heildarviðskipti á aðalmarkaði Kauphallarinnar námu 1,9 milljörðum króna og úrvalsvísitalan hækkaði um 0,53%. Nóg var af bæði hækkunum og lækkunum, en breytingar á gangvirði skráðra hlutabréfa áttu það sameiginlegt að vera fremur hóflegar; ekkert félag hreyfðist um yfir 2,5%.

Fasteignafélögin þrjú leiddu hækkanir dagsins. EIK bar þar af með 2,36% hækkun í 190 milljón króna viðskiptum, næst komu Reitir með 1,64% hækkun í 404 milljóna viðskiptum, og loks Reginn með 1,61% hækkun í 225 milljónum.

Origo lækkaði mest allra félaga, um 2,35% í litlum 9 milljóna króna viðskiptum. Næst komu bréf HB Granda með 2,18% lækkun í 137 milljónum, og loks bréf Icelandair með 2,04% lækkun í 116 milljóna viðskiptum. Ekkert annað félag lækkaði um yfir 1%.