Stofnendur Noona, rafræns markaðstorgs og bókunarforrits, vinna nú hörðum höndum að útrás félagsins en ákveðið var að nema lands fyrst í Portúgal. Þrátt fyrir að horfa út fyrir landsteinanna segja þeir að Ísland verði áfram hjartað og heimavöllur starfseminnar.

Rætur Noona má rekja aftur til ársins 2014 en þá var það hliðarverkefni Kjartans Þórissonar, samhliða háskólanámi hans, en boltinn fór að rúlla fyrir alvöru fjórum áður síðar þegar Jón Hilmar Karlsson gekk til liðs við félagið. Appinu var ýtt formlega úr vör vorið 2019 og er það nú notað af ríflega 70 þúsund Íslendingum og 350 fyrirtækjum. Nú hefur kúrsinn verið settur á nýjar lendur.

„Við komum hingað út fyrir tæpum tveimur vikum og stefnum á að vera hér fram í nóvember. Á þessum tíma höfum við verið að flakka á milli þjónustuaðila og kynna vörurnar,“ segir fyrrnefndur Kjartan. Sem stendur eru hann og Jón Hilmar í Lisabon en auk þeirra er Unnur Ársælsdóttir, viðskiptastýra félagsins, stödd í Porto í sambærilegum erindagjörðum.

Í upphafi árs var tilkynnt að Salt Pay hefði fjárfest í Noona fyrir 1.200 þúsund evrur, tæplega 200 milljón krónur, en fjármagnið var hugsað í frekari vöruþróun auk sóknar á erlenda markaði. Sem kunnugt er sterk taug frá Salt Pay til Brasilíu, auk Portúgal og annarra landa á meginlandi Evrópu.

„Ákvörðunin um að byrja í Portúgal var í raun tekin út frá því hvar SaltPay er með viðveru. Þeir keyptu fyrir ekki svo löngu portúgalskt félag, sem heitir Paqaqui, sem er með skrifstofur hér í Lisabon og Porto. Það er alltaf erfitt fyrir sprota að skjóta rótum erlendis svo það er skynsamlegt að þiggja alla þá aðstoð sem manni býðst,“ segir Kjartan. Að sögn hans var það enda eitt helsta markmið fjárfestingar félagsins í Noona að hjálpa félaginu að nema ný lönd. Á móti myndi Noona koma að því að styrkja samband SaltPay við þjónustugeirann.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Seljendamarkaður verður áfram á fasteignamarkaði næstu misserin.
  • Það styttist óðfluga í að byggingarframkvæmdir hefjist á Borgarhöfða.
  • Rætt við formann Samtaka leikjaframleiðenda um uppgang og framtíð greinarinnar.
  • Réttarsöguleg yfirferð á skattframkvæmd hvað varðar kaupauka og áskriftarréttindi til starfsmanna.
  • Sidekick Health hefur stækkað hratt á síðustu misserum og er að opna skrifstofur í Þýskalandi og Bandaríkjunum.
  • Sprotafélagið deskandbed.com er ný bókunarsíða, sem sérsniðin er að þörfum fjarvinnandi ferðamanna.
  • Nýráðinn forstöðumaður heilbrigðislausna hjá Origo ræðir um nýja starfið og handboltaferilinn.
  • Týr og Hrafnarnir eru á sínum stað og Óðinn fjallar um tækifærissinnann og stórkapítalistann Gunnar Smára.