Danska fjármálaeftirlitið hefur tilkynnt Nordea bankann til lögreglu fyrir að hafa láðst að tilkynna um eignarhlut sinn og þar með hagsmuni í Pandoru í fjárfestagreiningu á Pandora. Þetta kemur fram í Börsen.

Gengi Pandoru hefur lækkað mjög mikið undanfarið og hefur það vakið tortryggni og getgátur.

Greiningardeildir mæltu með kaupum í Pandoru í kringum skráningu í október 2010 og er ástæða lögreglurannsóknar nú að í greiningu sem Nordea gaf út þann 8. september 2010 kemur hvergi fram að bankinn eigi beinna hagsmuna að gæta með háu verði hlutabréfa í Pandoru.

Í svari frá Nordea kemur fram að upplýsingar um hluthafa hafi verið opinberar í skráningarlýsingu félagsins sem var gefin út þann 20. september 2010 og að allir viðskiptavinir bankans hafi fengið bréf þar sem fram kom að Nordea ætti 3,9% hlut í Pandora. Allir ættu því að hafa vitað af eignarhlut Nordea í Pandora.