Christian Clausen forstjóri Nordea, sem er stærsti banki Norðurlanda með hliðsjón af markaðsvirði, segir að bankinn muni einbeita sér að innri vexti næstu árin og sameiningar komi ekki til greina á næstunni. Hann viðurkennir þó að samlegðaráhrif fengjust með sameiningu við sænska bankann SEB.

Í samtali við finnska viðskiptablaðið Taloussanomat segir Clausen að Nordea stefni að því að vera virkur þátttakandi á markaðinum næstu árin og að hann muni vaxa um tíu prósent. Þegar þeim markmiðum verði náð sé tími til þess að fara á næsta stig. Slíkt myndi felast í kaupum eða yfirtöku á öðrum banka en ekki í því að Nordea verði seldur.

Sænska ríkið hefur ákveðið að selja tæpan fimmtungs hlut sinn á Nordea á næstu árum og hefur sú ákvörðun kynt undir væntingar um samrunahrinu á norrænum bankamarkaði líkt og hefur verið að eiga sér stað annars staðar í Evrópu. Clausen segir það blasa við að norrænir bankar verði of smáir fyrir evrópskan bankamarkað eftir áratug og bætir því við að Nordea hafi búið sig undir slíkt með samrunum. Aðspurður um ummæli sem breska blaðið Financial Times hafði eftir honum fyrr í þessum mánuði um að "augljóst vit" felist í sameiningu Nordea og SEB segir hann að hann hafi einungis sagt að SEB væri góður banki og ítrekar að Nordea einbeiti sér að innri vexti um þessar mundir.