Nordea Bank Luxembourg S.A. tilkynnti í morgun að bankinn hefði tekið yfir einkabankaþjónustu Glitnis Bank Luxembourg S.A..

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nordea.

Þar kemur fram að fjármálaeftirlitið í Lúxemborg veitti samþykki sitt fyrir yfirtökunni síðustu vikuna í október.

Þá hefur viðskiptavinum Glitnis verið tilkynnt um yfirtökuna en flutningur á eignum þeirra til Nordea er langt á veg kominn. Það gerir það að verkum að viðskiptavinir geta nú nálgast eignir sínar, að reiðufé undanskildu, sem hafa verið frystar frá því að Glitnir var þjóðnýttur í byrjun október.

Í tilkynningunni segir Jhon Mortensen, framkvæmdastjóri Nordea í Lúxemborg bankann standa vel að vígi og sé einn stöðugasti banki Evrópu um þessar mundir.