Á morgun laugardaginn 11. nóvember kl. 13:30 verða Norðfjarðargöng formlega opnuð á hefðbundinn hátt. Jón Gunnarsson samgönguráðherra mun þá klippa á borða með aðstoð Hreins Haraldssonar vegamálastjóra.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær í tilefni þess að sama dag verður Þjóðvegur 1, hringvegurinn, færður þannig að hann fylgi veginum eftir fjörðunum, þá leysa Norðfjarðargöng leysa af hólmi Oddskarðsgöng og erfiðan fjallveg að þeim göngum beggja vegna. Oddskarðsgöng voru byggð á árunum 1972-77 og eru einbreið, 640 m löng og liggja í um 610 metra hæð yfir sjó.

Tæplega 7,6 kílómetra löng

Lengd nýju Norðfjarðarganganna í bergi er 7.566 m, vegskáli er 120 m Eskifjarðarmeginn og 222 m Norðfjarðarmegin eða samtals 342 m. Heildarlengd ganga með vegskálum er því 7.908 m. Þversnið ganganna er 8,0 m breitt í veghæð.

Í göngunum eru 14 útskot, þar af fjögur snúningsútskot. Inni í göngunum eru 4 steypt tæknirými og 2 við hlið vegskála utan ganga. Neyðarrými fyrir um 150 manns verða við hvert tæknirými inni göngunum. Vegur í gegnum göngin er 6,5 m breiður milli steyptra upphækkaðra axla.

Gangamunni Eskifjarðarmegin er í 15 m hæð yfir sjó rétt innan við gamla Eskifjarðar-bæinn. Munninn Norðfjarðarmegin er í 126 m hæð yfir sjó í landi. Gólf í göngum fer mest í 170 m hæð yfir sjó.

Lögðu 7,3 kílómetra af nýjum vegum

Nýir vegir að göngunum Eskifjarðarmegin eru um 2 km og Norðfjarðarmegin um 5,3 km, samtals um 7,3 km. Vegurinn er 8 m breiður með 7 m akbraut. Í tengslum við vegagerð að göngum voru byggðar nýjar brýr annars vegar 44 m löng á Norðfjarðará og 58 m löng á Eskifjarðará.

Verktaki var Metrostav a.s. og Suðurverk hf, en verkfræðistofan Hnit annaðist eftirlit. VHE ehf. byggði brýrnar. Framkvæmdir á verkstað hófust í september 2013. Vígsluathöfnin fer fram við gangamunnann Eskifjarðarmegin. Kaffisamsæti verður að athöfn lokinni í Dalahöllinni, í Fannardal, Norðfirði. Fjarðabyggð verður með ýmsar uppákomur samhliða þessu.