William Nordhaus og Paul Romer hlutu í morgun Nóbelsverðlaunin í hagfræði fyrir rannsóknir þeirra á sviði loftslagsbreytinga og nýsköpunar. Financial Times greinir frá .

Nordhaus, sem er prófessor í hagfræði við Yale, hlýtur viðurkenningu fyrir að taka tillit til loftslagsbreytinga í þjóðhagfræðilegri langtímagreiningu. Hann bjó fyrstur manna til megindlegt líkan sem lýsir samspilinu milli hagkerfisins og loftslags, en það líkan er nú notað til að meta afleiðingar umhverfisstefnu eins og kolefnisskatta.

Romer, sem einnig er prófessor, og jafnframt fyrrum aðalhagfræðingur Alþjóðabankans, lagði grundvöllinn að því sem í dag er kallað innri hagvaxtarfræði (endogenous growth theory).

Verðlaunanefndin sagði helsta afrek þeirra hafa verið að þróa þau hagfræðilegu verkfæri til að takast á við þá grundvallarspurningu um hvernig megi tryggja sjálfbæran hagvöxt til langs tíma, sem hafi haft gríðarleg áhrif á opinbera stefnumótun.

Romer sagði á blaðamannafundi að hann vonaðist til þess að verðlaunin hjálpuðu til við að dreifa þeim boðskap að „fólk sé ótrúlegra hluta megnugt þegar það einsetur sér eitthvað.“