Nordic Foods AB, félag að hluta til í eigu athafnamannsins Gísla Reynissonar, vinnur nú að því að afskrá matvælafyrirtækin Laima og Starburadze úr kauphöllinni í Ríga á Lettlandi og er afskráning Starburadze langt komin.

Að sögn Gísla var ráðist í skráninguna til þess að einfalda eignarhald á félögunum en mikill fjöldi lítilla hluthafa á í þeim þó að Nordic Food AB eigi rétt um 90% hlut í báðum félögum. Þessi fjöldi lítilla hluthafa tengdist einkavæðingu félaganna á sínum tíma. Var ætlunin að ráðast í afskráningu strax í kjölfar skráningar og sagði Gísli að það gengi eftir eins og að var stefnt.

Laima er stærsti sælgætisframleiðandi Eystrasaltslandanna og var fyrirtækið stofnað 1870. Velta Laima nam um þremur milljörðum íslenskra króna í fyrra og jókst veltan um 19% frá árinu 2004. Starburadze er stærsta kexverksmiðja Eystrasaltslandanna og var stofnuð 1910. Velta Starburadze nam um 1.200 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 15% á milli ára.

Fyrirtækin eru hluti af NP Confectionary-samstæðunni, sem einnig inniheldur lettnesku fyrirtækin Gutta, Eurofood, Saldumu Tirdznieciba og pólska fyrirtækið Lider Artur en það var keypt fyrr á árinu. Lider Artur er með umfangsmikla starfsemi í Póllandi og þar starfa nú um 850 manns.

Að sögn Gísla er samanlögð velta félaganna í samstæðunni um átta milljarðar króna og stefnt er að áframhaldandi miklum vexti með uppkaupum og innri vexti. Tvö félög voru keypt inn í samstæðuna á síðasta ári og stefnt var að þriðju uppkaupunum. Þessi félög eru í 100% eigu Nordic Food nema Laima og Starburadze eins og áður sagði.

Nordic Food AB er sænskt eignarhaldsfélag sem er að öllu leyti í eigu íslenska fjárfestingafélagins Nordic Partners. Nordic Food AB heldur utan um allar fjárfestingar Nordic Partners í matvæla- og drykkjavörugeiranum. Auk þess hefur félagið verið mjög umsvifamikið á sviði fasteignareksturs í Lettlandi.