Fyrirtækið Nordic Partners, sem er í eigu nokkurra fjársterkra aðila, hefur á undanförnum mánuðum verið að kaupa gamlar og grónar fiskbúðir og fjárfesta í húsnæði fyrir nýjar. Greint er frá því í Fiskifréttum í dag að markmiðið sé að reka 15 til 20 nýtískulega verslanir undir heitinu Fiskisaga og stórbæta framboð á tilbúnum fiskréttum.

Nordic Partners er með mikil umsvif í matvælaiðnaði í Lettlandi og með rúmlega fjögur þúsund manns í vinnu þar. Hér á landi rekur Nordic Partners m.a. fiskvinnslu og eru með útflutning á fiski undir nafninu Sjófiskur. Félagið hefur einnig verið að hasla sér völl í fisksölu á Stór-Reykjavíkursvæðinu og í dag á fyrirtækið sex fiskbúðir reknar undir nafninu Fiskisaga.

Haft er eftir Óskari Garðarssyni, framkvæmdastjóra hjá Fiskisögu, að hugmyndin sé að gera verslanirnar nútímalegri og sinna markaðinum eins og hann er í dag.

"Það er mikið til eldra fólk sem kaupir fisk í fiskbúðum," segir Óskar í viðtali í Fiskifréttum, "en við ætlum okkur að höfða meira til yngra fólks án þess þó að hrekja eldra fólkið frá. Til þess að það sé hægt verðum við í fyrsta lagi að innrétta verslanirnar upp á nýtt og gera þær nútímalegri, auka úrvalið og bjóða upp á meira af tilbúnum réttum. Hugmyndin er að Fiskisaga reki 15 fiskverslanir á Stór-Reykjavíkursvæðinu og að búið verði að opna þær allar á næstu 10 til 12 mánuðum."

Óskar segir að til að ná því markmiði hafi sex rótgrónar fiskverslanir í rekstri verið keyptar, en það eru Hafrún og Vör og fiskbúðirnar við Sundlaugaveg, Hringbraut, Háaleitisbraut og Nesveg. Einnig hefur Fiskisaga fest kaup á húsnæði á fjórum stöðum í Kópavogi og tveimur í Hafnarfirði. Auk þess er áformað er að opna verslun í Mosfellsbæ, Grafaholti, á Selfossi, Akranesi og Suðurnesjum í framtíðinni. -- "Og svo er aldrei að vita nema við flytjum hugmyndina út í framtíðinni," segir Óskar í samtalinu við Fiskifréttir sem kom út í dag.