Norræna tæknistofan Nordic Office of Architecture, sem er m.a. með starfsstöðvar á Íslandi, er að sameinast arkitektastofunum Rubow Arkitekter og Norconsult Arkitektur í Danmörku og myndar með því eitt stærsta arkitektasamfélag Norðurlandanna, að því er segir í fréttatilkynningu.

Hjá Nordic Office of Architecture munu eftir sameininguna starfa um 500 manns í Noregi, Danmörku og á Íslandi. Nordic í Danmörku bætir við sig 200 arkitektum. Um 50 sérfræðingar starfa hjá Nordic á hér á landi.

Nordic segir að í kjölfar sameiningarinnar verði hún leiðandi teiknistofa Norðurlandanna þegar kemur að í húsnæðis-, heilbrigðis-, flugvalla- og menntaverkefnum.

„Við höfum unnið framúrskarandi verkefni og búið til sjálfbæran og margverðlaunaðan arkitektúr í meira en 50 ár sem Nordic Office of Architecture, Rubow Arkitekter og Norconsult Arkitektur. Við erum nú að sameina reynslu okkar, þekkingu og menningu til að skapa enn betri arkitektúr fyrir fólk, umhverfið og samfélagið, á staðnum og á alþjóðavettvangi,“ segir Hallgrímur Þór Sigurðsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Nordic á Íslandi.

„Þessi fjárfesting mun styrkja stöðu Nordic á danska markaðnum, auðga verkefnasafn okkar og efla sérfræðiþekkingu þvert á fræðigreinar og landamæri. Við hlökkum til að hefja samstarfið við nýja danska kollega okkar.“

„Samstarfið þvert á fræðigreinar og landamæri hefur verið mikilvægur þáttur í velgengni Nordic á danska markaðnum. Við höfum byggt upp einstaka sérfræðiþekkingu á sviðum eins og flugvalla- og heilsugæslubyggingum og nú höfum við tækifæri til að starfa á nokkrum markaðssvæðum“, segir Sofie Peschardt, sem hingað til hefur leitt Nordic í Danmörku og verið í forystuteymi hönnunar þar.