Fyrirtækið Nordic Store hefur keypt hina sögufrægu verslun Álafoss sem staðsett er í gömlu ullarverksmiðjunni í Álafosskvosinni i Mosfellsbæ. Nýir eigendur Álafoss hyggjast gera sögu staðarins góð skil, draga úr framboði á minjagripum en stækka úrval af ullarvörum og ullarbandi.

„Við stækkuðum verslunina töluvert með því að taka út lager sem var þarna, og höfum við núna betri framsetningu á prjónabandinu, það er ullinni,“ segir Bjarni Jónsson annar nýju eigendanna.

„Svo fyrir Íslenskar prjónakonur, sem koma mikið þarna, er það orðið mjög þægilegt að versla þarna, því við eigum svo mikið úrval, alla liti og gerðir, auk góðs verðs. Við höfum einnig töluvert af erlendu garni.“

Loka verslun í miðbænum

Nordic Store, sem rekið hafa verslanir í miðbænum síðan 2009 með prjónavörur og annað slíkt, er kaupandinn, en fyrirtækið er í eigu þeirra Bjarna Jónssonar og Hafsteins Guðbjartssonar.

„Álafoss er með aðeins annan kaupendahóp en í grunninn svipaðar vörur, og vildum við ná til breiðari markhóps með kaupunum,“ segir Bjarni sem segir verslunina munu halda áfram undir merki Álafoss, en hugsanlega verði lítilli verslun í miðbænum lokað.

„Einnig eru þeir með öfluga vefsíðu sem hentar okkur mjög vel enda erum við með níu vefsíður. Svo við fórum bara til eigenda Álafoss sem átt hafa fyrirtækið í um 15 ár og gerðum þeim tilboð.“

Opið í 12 tíma alla daga vikunnar

Opnunartími Álafoss hefur verið lengdur, og opnar verslunin nú fyrr á morgnana eða klukkan átta og verður hún opin til 20:00 á kvöldin, auk þess að vera opin alla daga vikunnar, en áður var hún lokuð á sunnudögum.

„Innst inn í versluninni verður sett upp fallegt kaffihús með léttum veitingum og þar verður hægt að ganga út á veröndina og sitja þar og njóta náttúrufegurðinnar við ánna og horfa á Álafossinn þar sem áin rennur inn í kvosina,” er auk þess haft eftir Bjarna í fréttatilkynningu sem send var út um kaupin.

„Við leggjum mikla áherslu á að varðveita sögu staðarins, erum að láta útbúa veggspjöld með gömlum myndum, sem mikið er til af, og svo eru gamlar vélar þarna sem verða til sýnis,“ segir Bjarni. „Í húsnæðinu er margt sem minnir á verksmiðjuna og viljum við flagga því, krókar í loftinu og svona.“

Mikil saga í kvosinni

Starfsemi Álafoss hófst árið 1896 og er saga þessa fyrirtækis samofin byggðinni í kvosinni um leið og það er ríkur hluti sögu Mosfellsbæjar auk þess að Álafosskvosin er fæðingarstaður ullariðnaðarins á Íslandi.

Var það Björn Einar Þorláksson á Varmá sem flutti fyrstur inn vélar til að vinna ull og notaði til þess vatnsorku úr fossinum sem varð upphaf starfseminnar. Á tímabili unnu um það bil 550 manns hjá fyrirtækinu sem eitt stærsta fyrirtæki landsins á tíma.

„Félagið hefur síðan farið nokkrum sinnum á hausinn eins og gengur síðan þá,“ segir Bjarni og hlær við, en þegar Ístex var stofnað til að sinna lopaframleiðslunni var verslunin seld út úr rekstrinum. Bjarni segir að ferðamenn séu duglegir að koma í verslunina í Álafosskvosinni eins og niðrí bæ.

„Það kom okkur eiginlega á óvart hvað það er mikil umferð þarna, en frá fornu fari stoppa bæði rútur og bílar þarna mjög mikið.“