Í gær var undirritaður í Dusseldorf samningur milli Icelandair Hotels, dótturfyrirtækis Icelandair Group, og Hilton Hotels Corporation þess efnis að Nordica hótelið í Reykjavík verði hluti af Hilton hótelkeðjunni og heiti framvegis "Hilton Reykjavik Nordica". Á næstu vikum verður merkingum og ýmsu varðandi starfsemi hótelsins breytt í samræmi við staðla Hilton fyrirtækisins að því er segir í frétt Icelandair.

Um er að ræða sérleyfissamning sem felur í sér að rekstur hótelsins verður áfram á vegum Icelandair Hotels en Hilton leggur til hina heimþekktu gæðaímynd keðjunnar og margvísleg markaðs- og kynningartækifæri á alþjóðavísu.

Nordica hótelið var enduropnað fyrir fjórum árum eftir miklar breytingar. Það er 252 herbergja, fjögurra stjörnu hótel, með einum besta veitingastað landsins, VOX, fyrsta flokks líkamsræktaraðstöðu, Nordica Spa og glæsilegri ráðstefnuaðstöðu með 11 fundarsölum og er sá stærsti fyrir 650 manns segir í tilkynningu.

Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, segir samninginn við Hilton staðfesta gæði Nordica hótelsins. "Hilton gerir strangar kröfur um gæði og aðstöðu á þeim hótelum sem bera nafnið og það hefur verið ánægjulegt að sjá að við þurfum ekki að gera neina stórvægilegar breytingar til þess að uppfylla þær. Þvert á móti hefur komið fram að hótelið er leiðandi ráðstefnuhótel á alþjóðavísu sem býr yfir frábæru starfsfólki. Með samningnum opnast okkur margskonar tækifæri sem byggja á þeirri staðreynd að Hilton er þekktasta og virtasta nafnið í heiminum í þessari atvinnugrein og býr yfir gríðarlega öflugu markaðs- og sölukerfi, sérstaklega í funda- og ráðstefnuhaldi og gagnvart viðskiptaferðamönnum."

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group, segir samninginn vera til marks um metnaðarfullan og kröftugan rekstur Icelandair Hotels. "Á undanförnum árum hefur orðið algjör viðsnúningur í hótelrekstri samstæðunnar og hér hefst nýr spennandi kafli. Við vinnum stöðugt að því að renna fleiri sterkum stoðum undir reksturinn, og íslenska ferðaþjónustu, og það er okkur mikilvægt að fá jafn sterkt vörumerki og Hilton í okkar lið".

Fyrsta Hilton hótelið var stofnað í Cisco í Texas í Bandaríkjunum af Conrad Hilton árið 1919, en þau eru nú um 500 talsins um allan heim. Auk þess rekur Hilton fyrirtækið aðrar hótelkeðjur, sem saman telja meira en 2.800 hótel.

Samningurinn var undirritaður í dag við hátíðlega athöfn á alþjóðaþingi Hilton Í Dusseldorf, þar sem voru saman komnir 300 helstu stjórnendur samstæðunnar. Fyrir hönd Hilton undirritaði Wolfgang Neuman, yfirmaður Hilton Í Evrópu og fyrir hönd Icelandair hótelanna skrifaði Hlynur Elísson, stjórnformaður, þeirra undir.

Á myndinni eru með þeim Guðjón Arngrímsson, upplýsingastjóri Icelandair Group, Deepak Seth, yfirmaður Hilton,Ingólfur Haraldsson, hótelstjóri Nordica og Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdatsjóri Icelandair Hotels