NordicPhotos hefur hleypt af stokkunum nýrri vefsíðu með fjölda nýjunga, en síðan er nú aðgengileg á norsku, sænsku, dönsku, íslensku og ensku.

Sölukerfi NordicPhotos hefur verið uppfært og er nú hægt að kaupa myndir allan sólarhringinn með greiðslukortum. Að baki myndabanka NordicPhotos standa fjölmörg myndasöfn og 500 ljósmyndarar.

„Okkur langaði að hanna síðu sem hentaði mismunandi notendahópum. Sumir hönnuðir vilja alls ekki fá mörg hundruð síður í leitarniðurstöðum og fyrir þá bjuggum við til Creative+, flokk þar sem við erum búin að yfirfara myndaúrvalið fyrir þá. Við hugsuðum líka til ritstjóra og bókaútgefenda sem vantar myndir af mismunandi viðfangsefnum og vilja mikið úrval. Fyrir þá höfum við milljónir mynda að velja úr en einnig margar aðferðir við að skilyrða leitina eftir því hvað þeir vilja. Einfaldleiki og falleg áferð var auk þess einn af útgangspunktunum við hönnunina og við treystum því að viðskiptavinum okkar líki breytingarnar,“ segir Arnaldur Gauti Johnson, framkvæmdastjóri NordicPhotos, í tilkynningu frá félaginu.

NordicPhotos var stofnað í lok ársins 2000 og er orðinn einn stærsti ljósmyndabanki Norðurlanda með  115.000 ljósmyndir komnar á stafrænt form. Auk þess að selja ljósmyndir úr eigin myndasafni sér NordicPhotos um sölu og dreifingu á erlendum myndasöfnum eins og Getty Images og AFP. Samanlagt býður NordicPhotos upp á tugi myndasafna og milljónir mynda til sölu. Hjá NordicPhotos starfa 20 starfsmenn á skrifstofum fyrirtækisins sem eru í Reykjavík, Stokkhólmi og Osló.

Áætluð ársvelta NordicPhotos er um 300 milljónir ISK.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá NordicPhotos.

Ný vefsíða NordicPhotos.