NordicPhotos hefur fest kaup á sænska myndabankanum Greatshots og verður rekstur hans sameinaður starfsemi NordicPhotos í Svíþjóð, segir í fréttatilkynningu.

Kaupverðið var ekki gefið upp en áætluð velta sameinaðs félags er um 200 milljónir íslenskra króna.

Greatshots er fjórði myndabankinn sem NordicPhotos kaupir í Svíþjóð á þremur árum en áður hafði fyrirtækið keypt Mira Bildarkiv og Ims Bildbyrå árið 2003 og Tiofoto árið 2005.

Kaupin styrkja NordicPhotos talsvert í Svíþjóð þar sem nú bætast við 7 erlend myndasöfn við það myndaúrval sem NordicPhotos hafði áður upp á að bjóða. Eftir kaupin verður NordicPhotos með hálfa milljón mynda á vef sínum í sölu í Svíþjóð

NordicPhotos, sem var stofnað í lok ársins 2000, er orðinn einn stærsti ljósmyndabanki Norðurlanda með ljósmyndir frá yfir 500 ljósmyndurum. Auk þess að selja ljósmyndir úr eigin myndasafni sér NordicPhotos um sölu og dreifingu á erlendum myndasöfnum eins og Getty Images.