Fyrirtækin Norðlenska og Kjarnafæði hafa komist að samkomulagi um að hefja viðræður um samruna. Þetta kemur fram í Bændablaðinu í dag.

Viðræður eru með fyrirvara um gerð áreiðanleikakannana, samþykki Samkeppniseftirlitsins og samþykki eigenda Norðlenska.

Fimm stærstu sláturleyfishafa landsins Kjarnafæði, SAH-afurðir, Norðlenska, Fjallalamb og Sláturfélag Vopnafjarðar, sem Kjarnafæði á ríflega 30% hlut í hafa tapað umtalsverðum fjármunum á undanförnum árum. Samanlagt tap þessara fimm stærstu sláturleyfisstöðva landsins nema um 800 til 900 milljónum íslenskra króna.

Fjallað hefur verið um að rekstrarumhverfi kjötafurðastöðva hefur verið erfitt síðustu ár en það hefur komið fram í úttekt á afurðastöðvum sem endurskoðendafyrirtækið KPMG vann fyrir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið.

Alls eru 320 ársverk unnin hjá félögunum tveimur, að því er Bændablaðið greinir frá, meðal annars á Akureyri, Svalbarðseyri, Húsavík og Höfn í Hornafirði.

Helstu vörumerki Norðlenska eru Norðlenska, Goði, Húsavíkur­hangikjöt, KEA og Bautabúrið og helsta vörumerki Kjarnafæðis er Kjarnafæði.