Fyrst og fremst var það röð ófyrirsjáanleika atvika sem ollu því að ég varð bankastjóri Seðlabanka Íslands,“ segir Svein Harald, sem er norskur hagfræðingur og starfaði fyrir ráðgjafafyrirtækið Mckinsey þegar hann fékk símtal sem hann átti ekki von á. „Viltu verða seðlabankastjóri á Íslandi,“ var spurt á hinum endanum og án umhugsunar svaraði Svein Harald: Já, já, af hverju ekki.

„Ástæðan fyrir því að ég fékk símtalið var sú að ég hafði ásamt þremur öðrum starfað í sérstökum aðgerðahópi í fjármálaráðuneytinu þegar norska bankakreppan reið yfir í byrjun tíunda áratugarins. Allavega grunar mig að það sé ástæðan fyrir því að nafn mitt og númer var að finna í einhverri skúffu í ráðneytinu,“ segir Svein Harald og brosir við. Hann fékk blessun vinnuveitenda sinna í McKinsey til að taka við stöðunni þótt hann hafi ekki fengið tímabundið leyfi heldur hafi þurft að segja upp störfum og selja hlutabréf sín í félaginu.

„Þeir mátu það þannig – og sjálfsagt réttilega – að starfið væri ekki áhættulaust  og vildu halda nafni fyrirtækisins frá umræðunni ef ég skyldi nú klúðra þessu og allt færi í bál og brand,“ segir Svein Harald, og bætir við: „Ætli þeim hafi ekki þótt það að minnsta kosti jafn líkleg niðurstaða og hitt. En svo var ég fara að berjast fyrir hagsmunum Íslands gegn kröfuhöfum og mögulega alþjóðlegum stofnunum og jafnvel öðrum þjóðríkjum. Barátta fyrir Ísland var ekki líkleg til að fara saman með hagsmunum McKinsey og viðskiptavina félagsins.“

„Ertu tilbúinn?“
Hlutirnir gerðust hratt eftir að Svein Harald þáði hið óvænta boð og fáeinum dögum seinna var honum flogið til Íslands sem logaði stafna á milli. Fyrstu vikuna hélt hann mikið til á hótelherberginu og beið átekta á meðan Alþingi breytti lögum um Seðlabankann þannig að ráðning Sveins gæti tekið gildi. Fráfarandi seðlabankastjóri var ekki sáttur við hlutskipti sitt og hvað þá ráðningu Norðmannsins og eina leiðin til að fá hann til að yfirgefa bankann var með lagasetningu. En var Svein Harald tilbúinn að stíga inní þessa ljónagryfju og átökin sem biðu hans?

„Áður en ég steig upp í vélina átti ég stuttan fund með ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins í Noregi sem spurði mig umbúðalaust þegar ég birtist í dyragættinni, ertu tilbúinn? Já, það held ég, svaraði ég. Hann spurði aftur, en ertu tilbúinn? Já, endurtók ég og sagðist hafa nýtt hverja stund til að kynna mér stöðuna. Gott og vel, en ertu raunverulega tilbúinn, spurði hann í þriðja sinn. Núna var ég ekki lengur viss og starði orðlaus á hann. Þá spurði hann, hefurðu lesið Íslendingasögurnar og hvernig ættflokkarnir hjuggu höfuðið af hver öðrum þegar til átaka kom? Þá kveikti ég loksins á perunni og skildi hvað hann var að fara,“ segir Svein Harald og hlær við.

„Ólíkt mér þá var ráðuneytisstjórinn vel lesinn í Íslendingasögunum og þekkti sögu landsins. Ég þóttist við öllu búinn og fullyrti að ég væri til í slaginn. Tveimur mánuðum seinna vissi ég betur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .