Úttektir norska ríkisins úr olíusjóði landsins hækka í 419,6 milljarða norskra króna vegna efnahagsástandsins samkvæmt frétt Reuters . Í fjárlögum frá október síðastliðnum var áætlað að útgjöld norska olíusjóðsins yrðu um 243,6 milljarðar norskra króna árið 2020.  Í nýjum áætluðum fjárlögum sem fjármálaráðuneyti Noregs birti á þriðjudaginn hækka útgjöld olíusjóðsins því um 176 milljarða norskra króna sem jafngildir 2.540 milljörðum íslenskra króna.

Norsk yfirvöld miða við að útgjöld olíusjóðsins eigi ekki að vera umfram 3% af eignum sjóðsins nema þegar efnahagslífið á í vandræðum. Útgjöld olíusjóðsins munu því vera 4,2% af markaðsvirði sjóðsins miðað við nýju fjárlögin sem er í fyrsta skipi í meira en áratug sem útgjöldin fara yfir 3% þakið.

Lækkun stýrivaxta í 0% í fyrsta sinn

Norges Bank, seðlabanki Noregs, lækkaði óvænt stýrivexti úr 0,25% í 0% þann 8. maí vegna efnahagsáhrifa COVID-19 og lækkun olíuverðs. Seðlabankinn gaf það til kynna hyggst ekki lækka stýrivextina frekar niður fyrir núllið.

Stýrivextirnir stóðu í 1,5% í upphafi árs en seðlabankinn neyddist til að lækka vextina um 1,25% niður í 0,25% í mars eftir tvo neyðarfundi vegna efnahagsáhrifa heimsfaraldursins. Á sama tíma bætti seðlabankinn við ódýrum bankalánum og beitti gjaldeyrisvaraforða sínum til að verja gengið.

Oystein Olsen, seðlabankastjóri Norges Bank, býst við að stýrivextirnir munu haldast óbreyttir í 0% um nokkurn tíma. Aðilar innan bankans höfðu áður lýst  yfir efasemdum um neikvæða og 0% stýrivexti vegna mögulegra áhrifa á norska banka. Hins vegar telja þeir nú lækkunina nauðsynlega til að draga úr frekari samdrætti í efnahagslífinu.

Kristoffer Kjaer Lomholt, greinandi hjá Danske Bank, sagði ákvörðunina hafa komið á óvart. Hann telur jafnframt „engar líkur“ vera á frekari lækkunum á stýrivöxtum norska seðlabankans. Einungis tveir af 21 hagfræðingum Bloomberg bjuggust við lækkuninni.