*

mánudagur, 19. apríl 2021
Erlent 28. febrúar 2021 16:15

Skora á Norðmenn að baða sig í vatninu

Hópur íbúa í Brasilíu höfðar mál gegn Norsk Hydro vegna mengunar — börn fæðast án líffæra og fólk kvartar undan krónískum verkjum.

Ritstjórn
Forsvarsmenn Norsk Hydro ætla að svara ásökunum fyrir dómstólum.
epa

Um 40 þúsund íbúar í Pará-fylki norðurhluta Brasílíu hafa höfðað mál gegn norska orku- og álfyrirtækinu Norsk Hydro. Hydro, eða dótturfélög, á báxít-námu á svæðinu en þessi leirtegund er mikilvæg í álframleiðslu. Einnig á norska fyrirtækið hreinsistöð á og álver á svæðinu.  Frá þessu er greint á vefsíðu enska dagblaðsins Financial Times (FT).

Pará-fylkið er í Amazon-skóginum og rennur sjálf Amazon-áin þvert í gegnum fylkið. Segja íbúarnir að áin sé orðin rauð af mengun. Benda þeir á að rannsókn frá Evandro Chagas stofnuninni, sem er opinber stofnun, sýni að áin og vötn á svæðinu séu svo menguð af iðnaðarskólpi að ekki sé hægt að leggja fisk sér til munns, baða sig eða yfir höfuð koma nálægt þeim stöðum þar sem ástandið er verst.

Maria do Socorro, einn íbúanna sem tekur þátt í málsókninni, lýsir því viðtali við FT að barnabarn hennar hafi fæðst með innyflin útvortis. Önnur börn á svæðinu hafi fæðst með mikla fæðingargalla, jafnvel án mikilvægra líffæra. Segist hún viss um að rekja megi allt þetta til iðnaðarmengunarinnar. Auk þessa kvartar fólkið, sem höfðar málið, um langvarandi verki, áður óþekkta húsjúkdóma og hármissi.

Ég skora á Norðmennina að koma hingað og baða sig upp úr vatninu," segir Socorro. „Auður okkar fer til Noregs og þar er vatnið heilnæmt."

Forsvarsmenn Hydro sögðust ætla að svara ásökunum fyrir dómstólum í Hollandi en málið er rekið þar, þar sem dótturfélögin sem um ræðir eru með höfuðstöðvar í Hollandi. Málið er mjög viðkvæmt fyrir norsk stjórnvöld, sem eiga 34% hlut í Norsk Hydro.