Norska ríkisstjórnin stefnir á að nota rúmlega 3% af olíusjóðnum í fjárlög næsta árs.

Olíusjóðurinn er sá stærsti í heiminum, að andvirði 899 milljarðar Bandaríkjadala, en mjög sjaldgæft er að meira en 3% af sjóðnum sé notað í fjárlög ríkisins. Sjóðurinn er ætlaður til að greiða lífeyrisskuldbindingar norska ríkisins.

Mega ekki eyða meira en nemur meðalhagnaði sjóðsins

Fjármálastefna norska ríkisins gengur út á að ríkið megi ekki eyða meira en sem nemur væntum hagnaði sjóðsins, sem er metinn í kringum 4% á hverju ári.

Samkvæmt mati norsku hagstofunnar stefnir hægristjórn forsætisráðherrans Ernu Solberg og fjármálaráðherrans Siv Jensen að því að leggja fram fjárlög sem sjá fyrir notkun á um 28,18 milljörðum dala, eða 225 milljörðum norskra króna, úr sjóðnum á næsta ári. Nemur það um 3.200 milljörðum íslenskra króna.

Á síðasta ári voru 22,49 milljarðar dala, eða 179,6 milljarðar norskra króna úr sjóðnum nýttar í fjárlögin.

Skattar lækkaðir á sumt, hækkaðir á annað

Samkvæmt fjárlögunum verða skattar lækkaðir sem nema um 6,5 milljörðum norskra króna í minni tekjum ríkisins. Þó verður ekki lækkun á auðlegðarskattinum sem leggst á heildareignir Norðmanna en hann þykir mjög umdeildur. Einnig verða skattar á tóbak og áfengi hækkaðir sem og skattar á flug og rafmagn, að kröfu Hægriflokksins.

Jafnframt hyggst ríkisstjórnin eina um 4 milljörðum í auknar tekjur til sveitarfélaga til að standa straum af velferðarkostnaði.

Fyrirtækjaskattur lækkaður

„Við erum að berjast við of háa skatta í Noregi,“ segir Jensen sem leiðir Framfaraflokkinn sem barist hefur lengi gegn háum sköttum.

Samt sem áður tilkynnti hún um nýjan fjármálaskatt sem lagður verður á þjónustu í fjármálageiranum. Hins vegar verður fyrirtækjaskattur lækkaður niður í 24%.

Noregur of háð olíufé

Ýmsir gagnrýna að nota eigi meira af olíupeningum í fjárlögin, prófessor Øystein Thøgersen í hinum norska hagfræðiskóla NHH hefur látið hafa eftir sér að hann hafi áhyggjur af því að Noregur hafi verið of háð olíufé í langan tíma.

Ýmsir greinendur búast við því að Noregur dragi úr fjárhagslegum stuðningi á næsta ári sé miðað við þetta ár, vegna þess að hagkerfið virðist vera að taka við sér.

Fjárfest í vistvænni orku

Margir sjá ákveðna þversögn í því að Noregur hyggst nýta fé frá sjóðnum til að fjármagna aðgerðir og verkefni til að auka nýtingu vistvænnar orku.

Rafbílageirinn mun verða einn þeirra geira sem munu hafa hag af því að fá veglegar niðurgreiðslur úr sjóðnum sem ætlaðar eru til að Noregur verði komið í svokallað kolefnisjafnvægi fyrir árið 2030.