Norski olíurisinn Statoil og fleiri fyrirtæki hafa fundið nýja olíulind á rúmlega tveggja kílómetra dýpi á svokölluðu Geitungen-svæði vestur af Noregi í Norðursjó. Í netútgáfu norska dagblaðsins Aftenposten er áætlað að verðmæti olíunnar sem talið er að þar megi finna á næstu 40 árum nemi á bilinu 92 til 178 milljarða norskra króna, á milli tæpra 2.000 til rúmra 3.700 milljarða íslenskra króna.

Talið er að þetta sé næststærsti olíufundur Norðmanna í Norðursjó.

Statoil á 40% hlut í verkefninu ásamt öðrum norskum fyrirtækjum. Á meðal fyrirtækjanna er Det norske oljeselskap, sem á 20% hlut. Kjell Inge Rökke, einn ríkasti maður Noregs, á helmingshlut í fyrirtækinu í gegnum móðurfélagið Aker Group.