Norska félagið Fredensborg AS hefur gert yfirtökutilboð upp á 17 milljarða króna í leigufélagið Heimavelli samkvæmt frétt Fréttablaðsins um málið. Hluthafar sem fóru með 23,5% hlut í félaginu hafa þegar selt sína hluti samkvæmt tilkynningum til Kauphallarinnar í kvöld.

Fredensborg var fyrir stærsti hluthafi Heimavalla með 10,22% hlut sem norska félagið keypti í janúar. Yfirtökutilboðið er á genginu 1,5 en gengi bréfa í Heimavöllum stóðu í 1,33 við lokun markaða í dag. Frá skráningu félagsins í Kauphöllina árið 2018 hefur dagslokagengi bréfanna ekki farið yfir 1,4.

Félögin sem þegar hafa selt eru Stálskip, Gani og Snæból ehf.

Stálskip selja á genginu 1,5 fyrir 1,45 milljarða króna samkvæmt tilkynningu sem send var inn til Kauphallarinnar í kvöld .  Stálskip fór með 8,59% hlut fyrir viðskiptin en bæði Snæból og Gani með 7,47% hlut. Snæból og Gani sem eru í eigu Finns Reys Stefánssonar og Tómasar Kristjánssonar sem selja fyrir um 2,5 milljarða króna samanlagt miðað við gengið 1,5 krónur á hlut.

Fréttablaðið fullyrðir að félagið hafi þegar fengið vilyrði stærstu hluthafa félagsins og bendir á að Fredensborg leigi fyrir út 40 þúsund íbúðir á Norðurlöndunum, Þýskalandi og Hollandi.

Sjá einnig: Í frosti hjá lífeyrissjóðunum

Frá skráningu Heimavalla á markað hefur markaðsvirði félagsins verið undir bókfærðu virði þess. Í árslok nam eigið fé Heimavalla 20 milljörðum króna. Félagið á ríflega 1.600 íbúðir.

Tuttugu stærstu hluthafar Heimavalla fyrir yfirtökutilboðið miðað við hluthafalistann þann 24. febrúar:

  • Fredensborg ICE ehf. 10,22%
  • Birta lífeyrissjóður 9,71%
  • Stálskip ehf. 8,59%
  • Snæból ehf. 7,47%
  • Gani ehf 7,47%
  • Arion banki hf. 5,44%
  • Sjóvá-Almennar tryggingar hf. 4,81%
  • Kvika banki hf. 4,12%
  • M75 ehf 3,77%
  • Vátryggingafélag Íslands hf. 2,67%
  • Landsbankinn hf. 2,30%
  • IS Hlutabréfasjóðurinn 2,13%
  • Eignarhaldsfélagið VGJ ehf. 1,95%
  • TM fé ehf. 1,93%
  • Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 1,87%
  • Efniviður ehf. 1,62%
  • Brimgarðar ehf. 1,22%
  • Heimavellir hf. 1,12%
  • Stefnir -  Samval 1,02%
  • Holt og hæðir ehf. 0,96%