Á sama tíma og aðfluttum Íslendingum hefur fjölgað í Noregi hefur áhugi Norðmanna á því að ferðast til Íslands aukist, að sögn Gunnars Pálssonar, sendiherra Íslands í Noregi.

„Það skiptir talsverðu máli að það komu næstum 52 þúsund Norðmenn í heimsókn til Íslands á síðasta ári. Þetta er næstum átta prósent af heildarfjölda ferðamanna sem koma til Íslands. Norðmenn eru í fjórða sæti á lista yfir ríki sem senda flesta ferðamenn til Íslands. Það munar um þetta. Þetta skiptir máli ekki síður en það að Íslendingar eru að koma hingað. Fyrir okkur í sendiráðinu skiptir þetta máli vegna þess að þetta eflir þessi bönd milli ríkjanna,“ segir hann.

Þá bendir Gunnar á að viðskipti milli ríkjanna tveggja séu með miklum blóma á fleiri sviðum en ferðaþjónustu. „Norðmenn keyptu af okkur í fyrra fyrir rúmlega þrjátíu milljarða íslenskra króna. Svo þú áttir þig á því þá keyptu Bandaríkjamenn fyrir um 28 milljarða og Danir um 16. Þannig að þetta er umtalsvert,“ segir hann. Einkum á þetta við um fiskimjöl, veiðarfæri og tæknibúnað t.d. frá Marel, auk kísiljárns sem Norðmenn kaupi af Íslendingum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .