Breska orkufyrirtækið National Grid, sem er nokkurs konar Landsnet Bretlandseyja, hefur samið við norska orkufyrirtækið Statnett um lagningu sæstrengs frá Noregi til Bretlands. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef norska ríkisfyrirtækisins í dag.

Sæstrengurinn verður 730 kílómetra langur og er flutningsgeta hans 1.400 megavött. Stefnt er að því að lagningu strengsins verði lokið árið 2021 og verður hann sá lengsti sinnar tegundar í heiminum.

Sæstrengurinn mun liggja frá hafnarbænum Blyth, sem er skammt frá Newcastle til Kvilldal, sem er ekki svo langt frá Stafangri. Áætlaður kostnaður við lagningu strengsins er á bilinu 1,5 til 2 milljarðar evra eða 220 til 300 milljarðar króna.

Lengi hefur verið rætt um að leggja sæstreng frá Íslandi til Bretlandseyja en þau áform hafa legið dvala. Slíkur strengur yrði 1.000 til 1.200 kílómetra langur og kostnaðurinn hefur verið metinn á allt frá 300 upp í ríflega 500 milljarða króna.

Lesa má tilkynninguna á vef Stattnett hér .