Norðmenn gætu tapað 460 milljónum norskra á því samkomulagi sem er í burðarliðnum í makríldeilunni. Þetta er í það minnsta fullyrt í norska blaðinu Fiskaren.

Þar kemur fram að stefnt er að því að heildarhlutur Noregs í sameiginlegum makrílkvóta fari úr 26,5 prósentum í 21,3% og kvóti Evrópusambandsins minnki úr 64,5% í 46,7%.

Fiskeren gerir ráð fyrir að verð á kíló af makríl sé 10 norskar krónur á kvótamarkaði og fær því þannig út að tapið fyrir Norðmenn séu 460 milljónir króna. Það jafngildir 9,2 milljörðum króna.

Gert er ráð fyrir að nánar verði gert grein fyrir sáttatillögunni á næstu dögum en samningaviðræður standa yfir.