Eignir Norðmanna í kolavinnslufyrirtækjum gegnum olíusjóðinn gífurstóra munu nú allar verða seldar með tölu. Fyrirtækin sem um ræðir eru fleiri en fimmtíu talsins. Fréttaveita Bloomberg segir frá þessu.

Meðal fyrirtækjanna sem olíusjóðurinn mun selja hlutabréf sín í eru American Electric Power, China Shenhua Energy og Whitehaven Coal, en þau ásamt 49 öðrum flokkast undir fyrirtæki sem byggja að minnsta kosti 30% starfsemi sinnar á kolavinnslu.

Olíusjóðurinn sem um ræðir er metinn á rúmlega 860 milljarða Bandaríkjadala. Það eru rúmir 105.780 milljarðar íslenskra króna - engin smáræðisupphæð. Allt í allt nemur sala sjóðsins um 2,3 milljörðum Bandaríkjadala - 282 milljörðum króna.