Norski seðlabankinn tilkynnti í haust að nú þyrftu einstaklingar sem hefðu undir höndum peningaseðla gefna út á árunum 1977 til 2001 að fá þeim skipt fyrir nýja seðla. Fresturinn til þess rann út fyrir almenning þann 1. nóvember síðastliðinn og höfðu fjármálastofnanir í kjölfarið tvo mánuði til að skila peningaseðlunum í hendur norska seðlabankans. Á síðustu dögum októbermánaðar skiluðu sér um 40 milljónir norskra króna.

Andvirði þeirra peningaseðla sem ekki skiluðu sér til seðlabankans er um 13 milljarðar íslenskra króna, eða 548 milljónir norskra króna. Fjallað er um málið á vef norska dagblaðsins Aftenposten í dag þar sem segir að líklegt megi telja að fjármunir þeir sem ekki skiluðu sér séu í varasjóðum fólks, ýmist í heimahúsum eða í bönkum. Ýmsir hafi jafnvel ekki áttað sig á að fjármunirnir yrðu brátt verðlausir.