Sænska fjárfestingafyrirtækið Nordtech Group AB í Stokkhólmi hefur keypt allt hlutafé í íslenska náms- og upplýsingatæknifyrirtækinu InfoMentor. Í fréttatilkynningu þar sem greint er frá kaupunum segir að InfoMentor sé leiðandi aðili á sínu sviði hér á landi og víða erlendis.

„Að Nordtech Group stendur hópur leiðandi hugbúnaðarfyrirtækja sem einbeitir sér að langtímafjárfestingum í hugbúnaðarfyrirtækjum á Norðurlöndum. Markmið kaupa Nordtech á InfoMentor er að vinna að frekari útbreiðslu á hinu leiðandi menntakerfi InfoMentor í Evrópu og þá ekki síst víðar á Norðurlöndunum. InfoMentor verður áfram rekið sem sjálfstætt fyrirtæki þar sem Nordtech mun veita InfoMentor öflugan stuðning til áframhaldandi þróunar sem leiðandi fyrirtæki á sínu sviði,“ segir í fréttatilkynningunni.

Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri InfoMentor, segir að kaupunum fylgi engar sérstakar breytingar í rekstrinum hér á landi eða í umhverfi starfsfólks fyrirtækisins. „InfoMentor verður hér eftir sem hingað til leiðandi aðili á sínu sviði á Íslandi í þjónustu sinni við skóla og sveitarfélög um allt land. Við sjáum hins vegar fram á ýmis spennandi tækifæri í tengslum við markmið Nordtech, þar á meðal með frekara samstarfi milli okkar og InfoMentor í Svíþjóð."

Örn Valdimarsson, stjórnarformaður InfoMentor, segir að í kaupum Nordtech felist mikil viðurkenning á því frumkvöðlastarfi sem InfoMentor hafi unnið í rúma þrjá áratugi. „Ég lít á langtímafjárfestingu Nordtech í InfoMentor sem mikla viðurkenningu, bæði á því hugviti og reynslu sem við höfum byggt upp, en ekki síður þeim árangri sem fyrirtækið hefur þegar náð á sínu sviði hér á landi og erlendis, þar sem fjöldi notenda skiptir nú þegar milljónum. Við teljum að það séu mörg ný spennandi verkefni fram undan."

Nordtech stofnuðu upphaflega Pål Hodann og Nils Bergman sem hafa mikla reynslu af rekstri og uppbyggingu norrænna hugbúnaðarfyrirtækja „Við erum afar ánægð með að InfoMentor skuli vera gengið til liðs við Nordtech. Sem leiðandi fyrirtæki á sínu sviði býr InfoMentor yfir miklum tækifærum til áframhaldandi vaxtar á sænska og íslenska markaðnum. Það sem vakti áhuga okkar á fyrirtækinu í upphafi var gott orðspor þess, ánægðir viðskiptavinir sem við ræddum við, öflugt teymi og djúp þekking á skólakerfinu," segir Nils Bergman.

Um InfoMentor:

Mentor var stofnað árið 1990 þá sem Menn og mýs. Árið 2000 var fyrirtækinu skipt upp og nafninu breytt í Mentor. Í dag heita bæði fyrirtækið og náms- og upplýsingakerfi þess InfoMentor sem jafnframt er vörumerki þess á markaði. Fyrirtækið hefur frá upphafi starfað náið með viðskiptavinum á grunni langrar og rótgróinnar reynslu af rekstri og þróun náms- og upplýsingakerfa sem skólar og sveitarfélög nota hér og erlendis. Fjöldi notenda skiptir milljónum meðal þeirra sem starfa með börnum í skólum og tómstundastarfi.