Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa sent frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem þau fordæma refsiaðgerðir Bandaríkjamanna gegn ríkinu vegna netárásar á Sony.

Samkvæmt frétt the Guardian um málið neitar Norður-Kórea staðfastlega aðild að netárásinni. Ónefndur talsmaður norður-kóreska utanríkisráðuneytis sakar Bandaríkin um að ýta undir andúð á ríkinu með refsiaðgerðunum. Með aðgerðunum séu Bandaríkin að reyna að einanagra Norður-Kóreu enn frekar á alþjóðasviðinu. Hann fullyrðir þó að refsiaðgerðirnar muni ekki veikja hernaðarmátt Norður-Kóreu.

Líkt og VB.is greindi var á föstudag ákveðið að Bandaríkin hertu refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu. Í lok nóvember var ráðist inn í tölvukerfi bandaríska fyrirtækisins Sony og birtir tölvupóstar og ýmsar viðkvæmar upplýsingar og telja Bandaríkin að stjórnvöld í Norður-Kóreu standi að baki netárásinni.