Samkvæmt ríkisreknu fréttastofunni Pyongyang Times hafa norður-kóreskir vísindamenn Taengdong fæðuverksmiðjunnar nú fundið upp áfengi sem menn verða ekki timbraðir af að drekka.

Blandan undraverða er sex ára gamalt ginsenglíkjör og hrísgrjónavín - eins konar sake - og heitir Koryo.  Í frétt PT segir að drykkurinn hafi mikil læknisfræðilegt gildi, þar eð ekki sé hægt að verða þunnur af honum. Auk þess sé hann bragðgóður.

Samkvæmt fréttinni hlaut drykkurinn - sem hljómar hreinlega eins og kraftaverk - fyrstu verðlaun í matarhátíð, sem haldin var í Norður-Kóreu nú á dögunum.

Koryo-líkjörið er þó ekki það besta sem norður-kóreskir vísindamenn hafa uppgötvað - en í fyrra var tilkynnt um að læknar þjóðarinnar hefðu fundið heilsubót við sjúkdómum á borð við HIV/AIDS, krabbamein, Ebóla-veiruna og eiturlyfjafíkn.