Norður Kórea hefur engan áhuga á því að feta í fótspor Írans og setjast að samningaborðinu við Bandaríkin varðandi kjarnorkumál. Þetta kom fram í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti þessa einangraða ríkis í dag.

Í yfirlýsingunni segir að kjarnorkuáætlun Norður Kóreu sé nauðsynlegt vopn gegn utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sem þykir vera óvinveitt landinu.

„Það er ekki rökrétt að bera okkar aðstæður saman við íranska kjarnorkusamkomulagið vegna þess að við erum sífellt fórnarlömb ögrandi hernaðaraðgerða af hálfu Bandaríkjanna, þar á meðal risastórra heræfinga þeirra með Suður Kóreu. Við höfum engan áhuga á því að ræða málin eða losa okkur við kjarnorkuvopnin okkar,“ sagði í yfirlýsingunni.

Bandaríkin og fimm önnur stórveldi gerðu sögulegt samkomulag við Íran í síðustu viku sem mun takmarka kjarnorkumöguleika Írans í skiptum við afnám viðskiptaþvinganna. Norður Kórea hefur einnig mátt þola miklar þvinganir af hálfu Bandaríkjanna, ESB og Sameinuðu Þjóðanna vegna kjarnorkuvopnaframleiðslu sinnar.